Valið er þitt

Í gær komst ég að því að ég er raunverulega bara vikugömul og það er dásamleg tilfinning. Hvernig má það vera hugsar þú sennilega kæri lesandi og ég skal gjarnan útskýra þetta betur.

Í árum talið er ég rúmlega 48 ára gömul, en í andlegum þroska er ég vikugömul. Það var nefnilega fyrir einni viku að ég tók meðvitaða ákvörðun um að breyta lífi mínu. Ég ákvað að losa mig við mynstur sem ekki hafa gert mig að þeirri manneskju sem ég vil vera. Ég ákvað að losa mig við neikvæðar hugsanir, og síðast en ekki síst þá ákvað ég að losa mig við fórnarlambshlutverkið sem ég er búin að vera föst í árum saman. Það eru til margar tegundir af fórnarlambshlutverkum, það eru þau sem sitja hokin með hendur í skauti, horfa á gólfið, andvarpa og segja “ ég er alltaf svo óheppin í lífinu, ég er fædd undir óheillastjörnu, ég get aldrei gert neitt rétt, allt gengur upp hjá öðrum……bla bla bla“. Svo eru það þau sem segja “ það er ekki mér að kenna að engum líkar við mig, ég er bara svona eins og ég er og ég get ekkert breytt því“. Svo eru það fórnarlömb eins og ég sem árum saman hef álitið sjálfa mig sterka og duglega manneskju, sem samt einhvern vegin hefur alltaf verið frekar utangátta. Ég hef aldrei upplifað mig sem hluta af neinum hópi eða heild, heldur sem manneskju sem er á kantinum og horfi inn í hópinn sem mig langar að tilheyra. Ég hef sýnt á mér einhverja hlið sem ég gerði ráð fyrir að fólki myndi líka við, ekki verið ósammála, ekki sagt mína meiningu, ekki sagt hvað ég hef þörf fyrir og ekki sagt frá ef mér finnst fólk ganga á minn rétt sem manneskju. Þetta er að vera fórnarlamb vegna þess að ég leit framhjá eigin ábyrgð í samskiptum mínum við aðra. Ég sat bara og tók orð og framkomu annarra persónulega, ég varð sár og reið og afundin og fór strax í vörn. Samskipti mín við fólk hafa mótast af því að ég hef verið í vörn og ekki álitið mig standa jafnfætis öðrum, verið óörugg og hrædd við að fólk muni dæma mig eða jafnvel líta niður til mín eða það sem mér þótti verst af öllu að fólk myndi vorkenna mér.

Fyrir viku síðan fór ég á coaching námskeiðið eins og ég geri hvert þriðjudagskvöld, ég var kvíðin eins og alltaf, með sting fyrir brjóstinu. Á hverjum þriðjudegi hef ég mætt með kvíðasting, óörugg gagnvart því sem var í vændum. það sem tók á móti okkur þennan þriðjudag voru 3 leiðibeinendur, hátalarar sem dúndruðu frá sér We will Rock You með Queen og hendur á lofti þar sem high five small í lófanum með feiknakrafti. Ég fann hvernig andstaðan í mér jókst og óöryggið fékk mig til að forðast að horfa framan í fólkið. Þegar við byrjuðum á því að dansa og hoppa og hrópa sveiflaði ég höndunum aðeins fram og tilbaka og beygði hnén svona bara rétt örlítið til þess að ég liti nú út fyrir að ég væri að taka þátt. Ein manneskja var sett í miðju hringsins og það sem hún gerði áttum við að gera líka. Þegar það kom að mér bara fór ég í vont skap. Ég sagði nei, og ætlaði út úr hringnum en nei mér var ýtt inn í hann aftur, svo ég bara klappaði saman lófunum og flýtti mér út aftur. Ég öfundaði eina konuna sem bara dansaði, hrópaði, hoppaði, klappaði og bara gaf frá sér orku sem gæti knýtt áfram allan heiminn. Allt þetta kvöld gerðum við eitthvað nýtt sem allt byggðist á því að við myndum finna okkar eigið peak stand. Það sem það þýðir er það tilfinningalega ástand þegar okkur líður ósigrandi, við erum á toppnum, við getum sigrað heimin alein bara með eigin lífskraft að vopni. Ég fann hvernig mótstaðan í mér jókst með hverri mínútu og ég í fyrsta skipti gat ég ekki beðið eftir að komast heim, bara losna frá þessu fólki með allri þessari feik orku og gleði. Þetta var sko ekki fyrir mig.

Þegar ég kom heim, tóku á móti mér fréttir sem ég svo sem átti von á sem gerðu mig enn sárari og leiðari. Gamlar hugsanir eins og “ hvað hefði ég átt að gera öðruvísi?“ „hvað er að mér?“ „er núna aftur komin á byrjunarreit?“. Síðan gerðist eitthvað annað. Skyndilega ruddust aðrar hugsanir inn í kollinn á mér. Hugsanir eins og „þetta snýst ekki mig“ „það sem aðrir hugsa og upplifa er ekki á mína ábyrgð“ “ það er ekki mitt hlutverk að breyta mér fyrir aðra“. Það sem ég gerði var að fókusa á þessar hugsanir, ég endurtók þær aftur og aftur og bætti við hugsunum eins og „ég þarf ekki á kvíða að halda svo ég losa mig við hann“ „ég þarf ekki á óöryggi að halda, svo ég losa mig við það“ og svo sagði ég við sjálfa mig aftur og aftur og aftur þangað til ég sofnaði “ Lísa, þú ert frábær eins og þú ert, þú átt skilið allt það besta í lífinu“

Daginn eftir vaknaði ég glöð og ánægð, sátt við sjálfa mig. En það sem er mikilvægast er að ég gerði mér grein fyrir að ég get valið allar mínar hugsanir. Ég get valið að einbeita mér að hugsunum sem gera mig sterka og veita mér lífshamingju eða ég valið að hugsa um það sem neikvætt og vantar í líf mitt. Hugsanir skapa tilfinningar og jákvæðar hugsanir skapa vellíðan og gleði. Ég tók ákvörðun fyrir viku síðan að ég skyldi einbeita mér að jákvæðum hugsunum. Það sem ég geri á hverjum degi núna er að skrifa niður þrennt á hverjum degi sem ég er þakklát fyrir, þetta er ég búin að gera í nokkra mánuði. Ég skrifa niður alla mína góðu kosti, og ég skrifa niður hvernig ég sé mína framtíð vera. Það er mikilvægt að skrifa niður staðhæfingar í nútíð og eins og maður hafi nú þegar náð markmiðinu. Vegna þess að heilinn starfar þannig að orð eins og ekki hafa öfuga verkun þannig að staðhæfingar eins og “ ég vil ekki alein“ hafa andstæðar afleiðingar. Skrifaðu alltaf Ég er heilbrigð, skemmtilegt, örugg, dugleg, elskuleg, hjálpsöm, frábær, stórkostleg…..listinn er óendanlegur.

Þess vegna er ég bara vikugömul í dag með allt lífið framundan og ég er sjálf arkitektinn að eigin lífi. Ég vel að vera hamingjusöm, ég vel að sjá það besta í sjálfri mér og öðrum og ég vel að vera besta útgáfan af sjálfri mér, vegna þess að það er mitt framlag til lífiins og heimsins og það er það sem fyllir mig vellíðan og gleði.

Ef ég get breytt mínu lífi, þá getur þú breytt þínu lífi!

IMG_7111

Verk í vinnslu

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá Facebook vinum mín að ég er í auknum mæli að setja inn ljósmyndir af myndum sem ég er að mála eða teikna.

Um leið og ég geri mér grein fyrir að ég skulda engum neina útskýringu á því hvað ég geri á minni eigin Facebook síðu þá langar mig að gefa ykkur smá innsýn inn í minn hugarheim.

Mínir nánustu vinir og ættingjar vita að eftir stúdentspróf flutti ég til Dewsbury í West Yorkshire, Englandi til að læra kvikmyndatöku og framleiðslu fyrir sjónvarp. Draumurinn um að fara í kvikmyndanám til Bandaríkjanna var sett á hilluna og þessi málamiðlun var látin duga. Þegar ég byrjaði í náminu þá 22 ára kemst ég að því að námið er engan veginn það sama eins og það hafði verið auglýst. Skyndilega kemur í ljós að þetta er raunverulega einhver diplómakúrs fyrir krakka sem voru á aldrinum 16-19 ára og ég fann strax að ég myndi engan veginn halda út heilt ár, hvað þá tvö með 16 ára gömlum strákum í kúrekastígvélum með Axl Rose tóbaksklútinn bundinn um stígvélin. Það sem gerðist á þriðja skóladeginum átti eftir að breyta öllu. Það mætti skyndilega maður sem spurði um mig, og þegar ég tala við hann segir hann að það sé búið að leita að mér út um allan skóla í öllum deildum! Án þess að hafa hugmynd um hvað hann sé að tala um er ekki laust við að ég verði svona frekar forvitin að vita hvað er í gangi. Það kemur í ljós að ég hafði verið samþykkt líka inn í undirbúningsnám fyrir frekara listanám. Námið getur verið eitt ár eða tvö þar sem kennd er grunntækni í listsköpun, teikning, grafík, málun og skúlptúr. Í náminu eru tæplega 50 krakkar sem hljómaði betur en þessi 12 manna unglingshópur sem ég var hluti af á þessum tímapunkti svo ég samþykki að koma og skoða deildina.

Við keyrðum af stað á miðjum skóladegi frá Batley til Dewsbury og keyrðum upp að fallegri byggingu sem var í senn gamaldags klassísk bygging ásamt nýlegri viðbyggingu. Mér leist strax vel á skólann. Við gengum upp á fyrstu hæð og inn í studio sem var fullt af krökkum sem stóðu ýmist við trönur að mála eða sátu við borð að teikna. Skyndilega er ég miðpunktur alheimsins, þögn slær á hópinn og allir horfa á mig, en bara eitt augnablik og svo héldu allir áfram að vinna. Við gengum á milli þriggja studioa og það var sama hvert ég horfði alls staðar blasti við eitthvað stórkostlegt listaverk.

Kennarinn útskýrði fyrir mér út á hvað námið gengi og hvernig það væri byggt upp og tilhugsunin um að verða hluti af þessum hópi var óneitanlega spennandi en ég var fljót að segja honum að ég hefði ekki teiknað síðan ég var 11 ára og þá hefði ég varla geta teiknað neitt merkilegra en Óla prik og ég hefði raunverulega mestan áhuga á að læra kvikmyndagerð. Hann lagði áherslu á að það skipti engu máli þó ég hefði aldrei teiknað því það væri eitthvað sem hægt væri að læra. Þessi viska fór algjörlega gegn því sem ég hafði lært í barnaskóla og grunnskóla að annað hvort getur maður teiknað eða ekki og ég hafði alltaf tilheyrt síðari hópnum og var sannfærð um að það væri ekki mögulegt að flytja sig á milli hópa.

En af því ég er yfirleitt til í að prófa eitthvað nýtt þá bara sló ég til á staðnum og sagðist vera tilbúin að skella mér í listanám.

Um leið og ég byrjaði í náminu þá miðaði ég allt sem ég gerði við það sem hinir krakkarnir gerðu, þó svo að kennararnir bentu mér á að ég ætti alls ekki að gera það. Allir krakkarnir komu af myndlistabrautum frá grunnskólanum og höfðu því verið að teikna og mála í nokkur ár. En samt hélt ég áfram að miða mig við þau og niðurstaðan var að ég var aldrei ánægð með nokkuð sem ég gerði. Auk þess er móðursystir mín listakona sem ég hef alltaf litið upp til, þannig að til þess að auka álagið á sjálfa mig þá miðaði ég mig við hana líka. En það sem raunverulega hafði mest áhrif á mig var að þegar ég kom heim um jólin og sagði frá skólaskiptunum þá fékk ég bara eina spurningu “ já ok ertu í myndlistarnámi, ertu með hæfileika? “. Þar sem ég upplifði ekki sjálfa mig með teiknihæfileika þá var svarið alltaf nei! Í mínum huga gat svarið ekki orðið “já” fyrr en ég gæti teiknað með 8H blýanti mynd sem minnti frekar á ljósmynd en teikningu.

Náminu lauk og ég gat ekki teiknað eins og mig langaði, ég fór í B.A. nám og útskrifaðist með góða einkunn en enn gat ég ekki teiknað eins og mig langaði svo ég gat enn ekki sagt að ég væri með hæfileika. Árin liðu og ég ákvað að ég væri ekki með hæfileika og snerti hvorki blýant né pensla í tæp 20 ár. Ég sagði við sjálfa mig að ég safnaði gagnslausum háskólagráðum og ég var aldrei feimin að segja það sama við aðra.

Það var síðan fyrir rúmlega einu ári síðan að ég tók upp vatnsliti sem ég á og byrjaði að mála litlar abstrakt myndir bara fyrir sjálfa mig. Mér datt ekki í hug að sýna neinum það sem ég var að gera af áhyggjum fyrir því hvað aðrir myndu segja um myndirnar og þar af leiðandi um mig. Ég óttaðist að fyrsta hugsun fólks væri “ bíddu fór hún ekki í myndlistarnám?” það sem ég óttaðist mest að aðrir hugsuðu og segðu um mig var það sem ég var búin að segja við sjálfa mig í rúmlega 20 ár. Það var þá sem ég ákvað að ég skyldi sýna myndirnar mínar, ekki til að fiska eftir hrósi heldur til að ég sjálf sæi myndirnar í öðru ljós, í öðru samhengi og á öðrum stað. Ég set myndirnar inn á Facebook svo að ég get sjálf horft á þær út frá öðru sjónarhorni og það hefur hjálpað mér mikið vegna þess að þegar ég skoða myndirnar í tölvunni þá hef ég ákveðna fjarlægð og get séð hvað ég vil vinna meira með og hvað ég vil láta vera.

Þess vegna deili ég verkunum mínum á Facebook svo ég geti skoðað þau án fordóma um eigin skort á hæfileikum, ef þau gleðja aðra þá er það bara bónus fyrir mig.IMG_7080

eftir harðan vetur kemur vor

Vetrinum er formlega lokið og núna er komið vor. Sól úti, sól inni, sól í sinni. Eftir harðan vetur sem ég hélt stundum að tæki aldrei enda er komið vor og það fyllir mig bjartsýni og gleði. Gleðin stafar af því að ég tók sjálf ákvörðun um að markvisst gera lífið betra. Það sem gerði það að verkum að ég gat tekið þessa ákvörðun var það að ég skráði mig nám sem hófst í ágúst sl. (það er efni í annað blogg). En við það eitt að ég markvisst breytti því hvernig ég hugsa hefur haft jákvæð áhrif á mig og hefur líka birst á margvíslegan hátt í mínu daglega lífi. Meðal annars tók ég ákvörðun um að ég myndi opna hjarta mig fyrir kærleikanum. Það var ekki auðvelt. Eftir óhamingjusamt hjónaband og erfiðan skilnað setti ég upp þykka brynju og var staðráðin í að enginn kæmist of nálægt mér. Ég ætlaði að koma í veg fyrir að ég yrði særð og ég sagði við sjálfa mig á hverjum degi að ég hefði engan áhuga á að stofna til sambands við einn eða neinn. Ef ég fór á kaffideit þá var fljót að taka það fram að ég væri ekki að leita að sambandi og að ég hefði engan áhuga á að blanda saman fjölskyldum með börnum og fyrrverandi mökum og öllum þeim pakka. Þetta sagði ég við sjálfa mig á hverjum degi. Ég er sem betur fer þeim kosti gædd að ég get viðurkennt þegar ég hef rangt fyrir mér ( sem betur hefur það bara gerst einu sinni áður, kannski tvisvar) og ég hafði rangt fyrir mér. Ég ákvað að segja það upphátt við sjálfa mig að mig langaði að kynnast manni sem er góður við mig. Skammtímamarkmiðið var að komast á almennilegt deit og enda í rúminu og langtímamarkmiðið var að enda oftar í rúminu með sama manninum. Það var svo mikill léttir að segja þetta upphátt og horfast óhrædd í augu við eigin langanir. Það er nefnilega þannig að ef við vitum ekki hvað við viljum þá fáum við aldrei það sem við viljum.

Það skemmtilega við það að byrja upp á nýtt í einkalífinu þegar maður er að nálgast miðjan aldur er það að maður þarf ekki að deita í tvo mánuði áður en maður sefur saman til að koma í veg fyrir að vera kölluð slut. Það leiðinlega við þetta eru blind date, maður veit aldrei hverju maður á von á og getur auðveldlega lent í deiti með lágvöxnum,  þybbnum portúgala þegar maður fer af stað með væntingar (byggðar á persónulegri lýsingu) um háan og grannan portúgala. Eða maður fer af stað til að hitta balletdansaran með þykkt og fallegt hár og kemst að því að hann var með þykkt og fallegt hár fyrir um það bil 10 árum síðan!  En ég er tilbúin að ganga í gegnum nokkur misgóð deit því ég veit að við endann á trjágöngunum bíður mín sá sem er alveg fullkominn bara fyrir mig.

App eða bókabúð

dating

Stefnumótasíður eru í senn lokkandi og fráhrindandi. Það getur verið erfitt að henda reiður á hvað er raunverulegt og hvað er sýndarveruleiki. Það má eiginlega segja að allir sem eru með Facebooksíðu setji fram tilbúinn veruleika í stað hins raunverulega lífs. Á Facebook er lífið slétt og fellt, uppstillt hrein börn í snyrtilega skipulegu umhverfi, girnilegur matur og brosandi vinir. Raunveruleikinn er annar, raunveruleikinn er pakkasúpa og brauð, ógreidd börn innan um ósamanbrotinn þvott, og einsömul kona fyrir framan tölvuskjáinn á kvöldin þegar börnin eru sofnuð. En flest viljum við sýnast lifa fullkomnu lífi, og það líf er svo sneisafullt af skemmtilegum uppákomum og viðburðum að vinirnir á veraldarvefnum verða örlítið afbrýðisamir, vegna þess að þeirra líf er ekki eins frábært. Og hérna koma stefnumótasíður inn í myndina. Það fellur ekki inn í hugmyndina um fullkomið líf að skrá sig á stefnumótasíður. En hvað gerir fólk eftir sambúðarslit og skilnað þegar það langar að kynnast öðrum sem eru einhleypir? Þegar ég var loksins skilin, og flutt inn í nýja íbúð tóku við barnlausar helgar. Í upphafi voru þessar helgar svolítið spennandi. Ég sá mig í anda í matarboðum hjá vinum og kunningjum þar sem þeir kynntu mig fyrir einhleypum mönnum. Já ég er búin að sjá of mikið af kvikmyndum! og ég hélt að svona yrðu mínar barnlausu helgar. En þegar heilt ár var liðið án þess að vinirnir hefðu einu sinni boðið í mat og aldrei reynt að kynna mig fyrir einhleypum vinnufélaga, breyttust þessar helgar fljótt í tíma einsemdar og kvíða. Ég kveið því að vera ein heima í lítilli íbúð sem skyndilega varð umlukin þögn sem stundum varð eins og þykk bómull sem umlukti mig frá föstudegi til sunnudags. Eitthvað leist systur minni ekki á letinia og hræðsluna í mér og sparkaði  svo hressilega í rassinn á mér að ég hrökk úr hlutlausum í fyrsta gír og ákvað að skoða nokkrar stefnumótasíður. Ég er búin að skoða innlendar og erlendar síður og það er greinilegt að það er heilmikið í gangi. Ég ákvað að slá til að skrá mig á eina erlenda síðu og tilgangurinn var eingöngu sá að tékka hvort einhver myndi skoða prófílinn minn áður en ég myndi búa til spariútgáfu af mér í þeim eina tilgangi að lokka mann í bólið.

Eftir að hafa valið nokkrar myndir af sjálfri mér bjó ég mér til prófil og fljótlega fóru að berast skilaboð og það var alltaf smá spennandi að opna síðuna og sjá hvort einhver hafði skrifað mér. Að lesa skilaboðin reyndist ekki eins spennandi, ég fékk skilaboð frá einum sem hljóðuðu þannig “ Hæ, ég sá myndirnar af þér og er að spá hvort þú sért raunveruleg manneskja eða hvort þetta þú ert einhver frá Austur-Evrópu sem ert bara að reyna að svíkja peninga út úr saklausum mönnum“. OK, ekki kannski svaravert ákvað ég, svo fékk ég alveg ofboðslega falleg skilaboð sem eiginlega voru eins og ástarjátning í formi ljóðs, svo ég kóperaði textann og setti inn í Google, og þá kom í ljós að þetta var texti sem hafði birst í bók og það sem meira er að fjölmargir virtust nota þennan texta á stefnumótasíðum. Ég prófaði líka að skoða myndir sem menn sendu mér og komst að því að oftar en ekki reyndust þetta vera tilbúnir prófílar sem engin raunveruleg manneskja stóð bak við. En mér tókst fljótlega að taka frá allt drasl og rusl og að lokum ákvað að taka áhættuna og svara spjalli frá þeim og og að lokum segja já takk við að hittast. Fjórum sinnum hef ég verið nógu huguð til þess að segja já takk og fjórum sinnum hafa þessir herramenn hætt við á síðustu stundu!  Hvað gerir maður til að byrgja sig gagnvart vonbrigðum? Ég get ekki svarað því vegna þess að ég tek þettanærri mér, þó svo að ég eigi auðvitað ekki að gera það. Fyrir mér er þessi höfnun eins og ég neita að lesa bók bara vegna þess að kápan og titillinn lokkar ekki. En svona er þetta í fráskildum sýndarveruleika. Allir eru að leita að einhverju en guggna þegar á hólminn er komið. Það kom mér á óvart að í flestum tilfellum eru menn að leita að kærustu, en það staðfestir þann grun minn að menn geta ekki verið einir. Ég aftur á móti er búin að fá mig fullsadda af sambúð við dysfunctional menn og langar bara á stefnumót með öllu tilheyrandi! Núna ætla ég bara að spila með og segjast vera að leita mér að kærasta, ég læt mig síðan bara hverfa þegar viðkomandi réttir mér tóma skúffu. Annars fékk ég gott ráð um daginn og það var að taka það fram fyrirfram að ég vildi ekki skuldbinda mig í samband fyrr en ég væri búin að fullvissa mig um að kynlífið sé gott. Ekki verra ráð en mörg önnur.

Spurningin er hins vegar, hvar hittist fólk? Er fólk á besta aldri á skemmtistöðum? Er fólk að skiptast á orðum og símanúmerum á hlaupabrettunum eða sundi? Eða gerir maður eins og einhleypar konur í kvikmyndum , fara í bókabúðir og skoða sjálfshjálparbækur í von um að rekast á einhleypa menn í sömu erindagjörðum? Það verður að segjast að það er mun rómantískara að gjóa augunum á einhvern girnilegan mann yfir rekka fulla af sjálfshjálparbókum en að sitja á klósettinu í jogginggalla með símann og skoða stefnumótaapp á meðan, svo næsta barnlausa helgi mun fara í að þræða bókarbúðir og kaffihús bæjarins.

harry-sally-298x248

Góða helgi

Leaving The Passive Aggressive- Now What?

Það er ótrúlega nákvæm lýsingum á mínu eksi þarna. Hann er klárlega fyrsta týpan, hann gekk í burtu frá öllu, enda var ekkert eftir.

P.A. Don't Stand For Palo Alto

angry couple face offI’ve been asked what to expect once you’ve decided you’re leaving the passive aggressive spouse or partner. Being passive aggressive, they can actually move in two or three different directions, but they are still pretty predictable once you are prepared for all and can figure in which way he/she is moving.

I should warn you that if this is your choice, you should be well prepared ahead of time. The things that are very important to you you should slowly be packing away somewhere so they are easy to move out fast once you break the news. Remember that most stuff is just that, stuff. It can be replaced. Things that belonged to your grandmother cannot. Be real on what you really want and need.

Squirrel some money away. You don’t have to take thousands from the grocery money every month, but $20 here, $20 there, adds up. No…

View original post 703 fleiri orð

Would you like me to seduce you?

Svo virðist sem nýr tími sé hafinn í lífinu og ég veit ekki hvort ég eigi að vera þakklát eða skammast mín. Ég er núna Mrs.Robinson og þó svo að það sé bara mátulega sexy þá finnst mér það örlítið furðulegt. Ástæðan fyrir að ég velti þessu fyrir mér núna er sú, að ég, rétt eins og svo margir aðrir einhleypir, skráði mig á samskiptasíður ( úuuuuuu fleiri en eina) og já amk tvær! Ég verð að viðurkenna að þetta er það furðulegasta sem ég hef gert og því er ekki að neita að ég finn fyrir einhverri skömmustutilfinningu. Hvers vegna veit ég ekki því ég er einhleyp, fullorðin og á rétt á að lifa lífinu eins og ég kýs. Kannski er skömmustutilfinningin ekki eingöngu yfir því að vera skráð á svona síðu heldur vegna þess þeir sem senda mér skilaboð og flörta á veraldarvefnum eru í flestum tilfellum rúmlega tuttugu árum yngri en ég. Menn á mínum aldri ( sem er rétt í kringum 50 árin) líta ekki við mér, en strákar ( og ég segi strákar en ekki menn af því mér finnst ég geta verið mamma þeirra) senda mér yndisleg skilaboð, hrósa mér, daðra við mig og jafnvel bjóða mér út á deit. Og mín fyrstu viðbrögð hafa án undantekningar verið “ Guð minn góður sonur sæll, veit móðir þín að þú ert skráður á samskiptasíðu og gætir verið sonur minn?“ og það næsta sem mér dettur í hug er , kræst hvað ef ég útskrifaðist með foreldrum þessa unga manns? Vá hvernig væri það nú, að byrja að hitta og sofa hjá einhverjum ungum manni og síðan hitta foreldrana á næsta stúdents reunioni? Það rennur af mér við tilhugsunina. Já lesendur góðir það er mánudagskvöld, annar í hvítasunnu og ég er að sulla í hvítvíni! Það var annað hvort það eða hella niður fullkomnlega góðu Alsace hvítvíni. Og mér dettur það ekki í hug miðað við allan matinn sem við hendum í hverri viku Sjáiðið hvernig ég réttlæti drykkjuna með því að nota samviskubitið yfir að henda mat ?  En aftur að mér og þessum ungu mönnum sem vilja hitta mig. Hvers vegna eru ungir menn rúmlega tvítugir að daðra við konur á „besta“ aldri? Og hvers vegna gríp ég ekki tækifærið fegins hendi? Kosturinn við að segja já við þá væri eflaust að þeir eiga unga foreldra sem deyja ekki og þar með skapa frábæra afsökun fyrir því að geta hætt við deitið ( það hefur að koma fyrir mig tvisvar og ég les samviskusamlega dánarfréttirnar til þess að geta sannreynt hvort einhver dó eða hvort einhver vildi bara losna við að hitta mig!),

Eru ungir menn að leita að einhverri Mrs, Robinson upplifun, eldri kona, eða einhvers konar móðurkomplexar og eldri menn ( á mínum hóst aldri) eru með gráa fiðringinn og leita sér að ungri konu sem þá væntanlega er í einhverju tilfinningalegur rugli og leitar sér að föðurímynd? Hvers vegna virðist það reynast karlmönnum svo auðvelt að deita ungar konur á meðan það fylgir því neikvæður stimpill fyrir konur að deita menn sem eru 20 árum yngri en þær? Þvílík hræsni!

Svo nú er ég farin að plokka þetta eina grá píkuhár sem ég fann um daginn og svo ætla ég að segja já takk við unga manninn sem stakk upp á því að elda fyrir mig (nakinn) og síðan lofaði hann nótt sem ég myndi ekki gleyma. Halló hvað er ég að eyða tíma í að skrifa hérna þegar ég gæti verið að svara honum!

Hvert fóru allir?

 

Það sem liggur á mér núna og hefur gert í langan tíma er sú staðreynd að þegar ég tilkynntum vinkonum mínum að ég væri að skilja, þá hurfu þær. Ég meina ekki að lögreglan sé að rannsaka dularfullt hóphvarf kvenna á öllum aldri, heldur má segja að þær hafi horfið úr mínu lífi. Það er ekki eins og þær hafi slitið opinberlega vinskapnum við mig með því að henda mér út af vinalistanum á facebook, heldur hurfu þær mjög hljóðlega og svo snilldarlega að ef ég myndi spyrja þær hvers vegna þær hurfu þá myndu þær ekki hafa hugmynd um hvað ég væri að tala.

Í tvö og hálft ár hefur engin þeirra haft samband að fyrra bragði og spurt hvernig ég hafi það. Mér hefur ekki verið boðið í matarboð allan þennan tíma, né hafa þær tilkynnt komu sína á kvöldin eða um helgar. Einhvern tímann reyndi ég að orða það að helgarnar sem ég var barnlaus væru oft einmanalegar og þá var viðkvæðið “ þú átt bara að hafa samband“. En ég gerði það, ég stakk upp á að hittast, fara á kaffihús, út að borða, út á djammið, bæjarrölt og fleira en einhvern veginn var sá dagur planaður og skyndilega upplifði ég mig eins og sjálfselska tík sem skorti allan skilning á því hvað það er að vera giftur með börn og eini tíminn með fjölskyldunni er um helgar.Ekki er það nú ætlun mín að slíta hjón í sundur og splundra fleiri heimilum einungis svo að mér leiðist ekki aðra hvora helgi en ég velti því fyrir mér hvort það séu virkilega óraunhæfar kröfur að gera til vina sinna að þeir hafi samband af fyrra bragði þegar þeir vita að einn í hópnum er að ganga í gegnum erfitt tímabil og hefði virkilega gott af að hitta einhvern. Svo ég fór að velta því fyrir mér hversu miklar kröfur maður getur gert til vina sinna. Eru það óraunhæfar kröfur að vinir manns bjóði mann í mat eftir skilnað eða hringi eða komi í heimsókn bara til þess að spjalla og aðallega hlusta á hvernig manni líður? Kona sem ég kynntist stuttlega í gegnum vinnu sagði við mig að það væri sambærileg sorgin sem maður gengur í gegnum við hjónaskilnað og við fráfall ástvinar. Mér fannst þetta fullgróf samlíking, en því meira sem ég hugsa um hana þá skil ég hana betur. Að taka ákvörðun um að splundra upp fjölskyldueiningu þýðir að maður þarf að grafa djúpt og rífa upp rætur sem hafa á löngum tíma fest sig kyrfilegaí allt sitt nánasta umhverfi og við það að rífa upp ræturnar þá deyr plantan, sama hvort um er að ræða túnfífil eða reynitré. Afleiðingarnar eru þær sömu, ef ræturnar eru slitnar upp þá er ekkert sem getur viðhaldið lífinu. Hjónaband sem einn dag veldur eintómri óhamingju var einu sinni lítið fræ fullt af möguleikum og þegar það líður undir lok þurfa báðir aðilar að kveðja það líf sem þeir hafa lifað saman og hefja nýtt líf á nýju stað við nýjar aðstæður. En á sama tíma, ef börn eru í spilinu, þá er ekki hægt að komast hjá samskiptum sem þýðir að sársaukinn og sorgin er alltaf marandi rétt við yfirborðið, og það er við þessar aðstæður sem vinir eru svo nauðsynlegir. Að geta talað við einhvern, sem ekki dæmir mann, eða reynir að benda á þetta muni allt lagast á endinum, er það eina sem kemur manni í gegnum erfiðleika. Á tveimur á hálfu ári er ég búin að syrgja. Það gerðist ekki strax í upphafi. Fyrst var ég algjörlega undirlögð af létti, og ég trúði eiginlega ekki að ég hefði látið verða af þessu. Eftir áralanga óhamingju, streitu, rifrildi, þagnarbindindi og almennar þjáningar hafði ég loksins öðlast kjark og trú á að ég gæti spjarað mig ein með börnin okkar. Ég hlakkaði til að geta verið ég sjálf og slakað á án þess að vera umlukinn streitu, óhamingju og pirringi sem hafði einkennt lífi mitt undanfarin ár. Og ég naut þess að setja teppi á gólfið og borða skyndibita fyrir framan sjónvarpið með börnunum mínum og þykjast vera í lautarferð, ekkert stress yfir hvort einhver missti niður franska kartöflu eða gleymdi að þurrka sér í sérvéttu. En helgarnar þegar börin eru hjá pabba sínum eru farnar að reynast óbærilegar. “ Fáðu þér hobby“, gakktu í eitthvað félag eða klúbb með öðrum fráskildum“ “ farðu til sálfræðings“ “ finndu hvað þér finnst skemmtilegt að gera, finndu svo annað fólk sem finnst það líka skemmtilegt og gerðu eitthvað með þeim“. Svona hljómar brot af þeim góðu ráðleggingum sem ég hef fengið þegar ég segist vera einmana. Ég skil vel að það eru einhvers konar ósjálfráð viðbrögð að vilja gefa góð ráð ef einhver er í vanda. Ég geri þetta líka. Ef ég segi að þetta sé erfitt þá fæ ég að heyra að svona neikvæðar hugsanir eru ekki til að hjálpa.Það sem ég skil ekki er hvert fóru allir? Hvað varð um vinkonurnar? Hvers vegna þarf ég að skrá mig í klúbba fyrir einhleypa og borga sálfræðingi til að hlusta á mig ef ég vil eiga í einhverjum mannlegum samskiptum fyrir utan börnin mín? Ég er að vísu heppin, ég á góða systur og mömmu sem nennir að hlusta á endalausan grát og gnístran tanna en það eru takmörk fyrir því hvað maður getur lagt að fjölskylduna. Og ég er svo heppin að það er vinkona sem er til staðar, kona sem líka er búin að ganga í gegnum skilnað. Þegar hún lýsir sínum fyrrverandi og ég lýsi mínum þá held ég stundum að við séum að lýsa sama manninum og eins ólíkar og við erum þá tölum við sama tungumálið og það er það sem skiptir máli. Mig grunar að ástæðan fyrir dularfullu hvarfi vinkvennanna sé að við tölum ekki lengur sama tungumálið. Þær skilja mig ekki. Þær tala ekki fráskilsku og þær skilja ekki tilfininngaleg útbrot (e.outbursts) af minni hálfu sem geta gerst skyndilega án undanfara og eru oft óskiljanleg og geta lýst sér í gráti eða kaldhæðni og beiskju. Ég ræð ekki alltaf við mig, ég get farið að gráta í Bónus, ég græt í bílnum og ég græt heima. Ég get vel skilið að það sé erfitt að eiga svona vinkonu, en mitt þunglyndi og sorg er sennilegast bara tímabundið en vinskapur er eilífur. Eða svo hélt ég. Það hefur verið nógu erfitt að gagna í gegnum hjónaskilnað að ekki bætist við dularfullt hóphvarf vinkvenna svo í þessum töluðu orðum auglýsi ég eftir vinum sem nenna að kynnast konu á besta aldri sem hefur gaman af dansi, mat, bíó, bókum og tilfinningalegum útbrotum, sem eru annað hvort afleiðing skilnaðar eða breytingaskeiðs þá endilega sendu mér hugskeyti og ég mun svara við fyrsta tækifæri.

linus

40 year old virgin

cat

Já ég meina það, ég er næstum því hrein mey, hef ekki verið við karlmann kennd árum saman, ég er, meira að segja, næstum því farin að roðna ef ég er í félagsskap hins kynsins. Verð öll feimin og veit ekki alveg hvernig ég á að hegða mér. Ástæðan fyrir því að ég er að minnast á þetta hér og nú er að eftir að hafa setið heima í rúm tvö ár þá hef ég ákveðið að segja já takk við tilboðum frá hinu kyninu um kaffi og vín og notalegum kvöldstundum eins og þeir lofa.Það að upphaf þessara tilboða eigi sér stað á stefnumótasíðum á ekki að skipta máli. En samt gerir það það. En hvar kynnist fólk í dag ef vinir manns eru ekki að kynna mann fyrir efnilegum einhleypum mönnum? Þannig að farið í rassgat ef þið dæmið fólk sem er á stefnumótasíðum! Ég er búin að þiggja tvö slík boð áður. Fór af stað eitt laugardagskvöldið til að hitta efnilegan mann á besta aldri. Listamaður hvorki meira né minna og ég var bara soldið spennt. Ég eyddi deginum með heimagerðan eggjahvítumaska á andlitinu til þess að reyna að slétta úr verstu hrukkunum og með gúrkur á augunum, hlustandi á pan flautur allan daginn í sófanum. Ég ætlaði að vera afslöppuð á þessu fyrsta deiti sem ég fór á í fyrsta skipti í 16 ár. En eftir heilan dag í sófanum, með gúrkur fyrir augunum og panflautur í eyrunum þá var ég svo afslöppuð að ég var við það að slefa og gat varla gengið. En ég komst af stað. Strætó, ef ég skyldi fá mér eitt hvítvínsglas og léttfætt eins og hind fór ég af stað á stefnumót við hið óþekkta.

Ég sá hann um leið og ég kom inn á staðinn og hann stóð upp og tók á móti mér með kossi á kinnina og var hinn ljúfasti. Við þetta stífnaði ég upp og ég fann hvernig hrukkurnar hrukku tilbaka á sinn stað, slefið fraus í munnvikunum á mér og það var eins og hjartað í mér stoppaði af stressi. Ég kom varla upp orði allt kvöldið. Ég pantaði mér kaffibolla og hann drakk einn bjór. Þrátt fyrir þögnina þá spurði hann hvort við ættum að fara eitthvað annað og það eins sem ég gat sagt var “ ég get ekki verið of lengi því ég þarf að vakna mjög snemma og hjálpa vinkonu minni að flytja“ !! Ég hefði allt eins geta sagt að ég þyrfti að þvo á mér hárið í fyrramálið. Hann tók þessu vel og eftir að hafa setið í rúman klukkutíma yfir stirðum samræðum og þögnum, þá labbaði hann með mér út á stoppustöð. Þar kvöddumst við, hann tók utan um mig og passaði mig að snúa mér alls ekki að honum ef hann skyldi reyna að halla sér að mér fyrir koss. Ekki spyrja mig hvað er að mér, ég veit það ekki sjálf. Eftir þetta hafa okkur fáu samskipti verið eins og brennibolti, hann kastar til mín hugmyndum um að hittast og ég reyni eftir bestu getu að vinda upp á mig til að forðast að hann hitti mig! En þegar ég sem sagt kom heim um kvöldið og var að þvo mér í framan sá ég að ég var með klessu af eggjahvítumaska á hálsinum!!! Kræst ég þori ekki að hugsa til þess hvort ég hafi borðað birkirúnnstykki yfir daginn.

 

Núna um helgina eru fleiri deit í vændum, meira að segja tvö sama daginn. Ef maður ætlar að gera þetta þá dugar ekkert annað en að gera þetta almennilega. Planið er sem sagt að vera vandræðaleg yfir kaffi og síðan mátulega drukkin og flörtí um kvöldið. Verst að ég fékk ekki tíma í bikinivaxi því annars er aldrei að vita nema ég drekki þennan aukadrykk sem gerir mig mátulega lausláta. Tilhugsinin um kvikmyndakynlíf er að verða soldið spennandi, spurningin er hvort ég ég vínið setji mig í slow motion silhouette kynlíf eða hömlulaust, henda myndum af veggjum, gera það í eldhúsvaskinum kynlíf. Hmmmmm.

Ég lofa að ég mun pottþétt kiss and tell svo fylgist með póstum eftir helgina.

Að sofa hjá honum í fyrsta skipti

Hver hefur ekki látið sig dreyma um kynlíf eins og það birtist í bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Hvern hefur ekki langað að elskast í slow motion og silhouette eins og í Top Gun, eða í eldhúsvaskinum eins og í Fatal Attraction, eða í Hollywood mjúkfókus þar sem engar hrukkur eða cellulite er sjáanlegt ? Mig hefur dreymt um kvikmyndakynlíf þar sem ég er svo undirlögð af löngun að ég hálflamast í fanginu á kynþokkafullum karlmanni. Raunveruleikinn hefur verið annar. Raunveruleikinn er á engan hátt eins spennandi og kvikmyndakynlífið sem mig dreymdi um. Raunveruleikinn var kaffibolli um miðjan dag sem leiddi af sér koss og kelerí sem leiddi til mjög snyrtilegs og skipulagt kynlíf.

Ok til þess að setja þetta í samhengi þá er sagan svona:

Fyrrverandi bauð mér í kaffi á sunnudegi. Við vorum búin að vera að hittast í nokkur skipti, borða saman, hittast með börnin og svona, þannig að það er ekki eins og þetta hafi verið fyrstu vikuna.  Við erum sem sagt búin að drekka kaffi saman og erum að spjalla, þegar hann kyssir mig og ég kyssi hann. Eftir nokkurra mínútna kelerí, spyr hann hvort við eigum að fara inn í svefnherbergi, ég hefði alveg verið sátt þarna í sófanum, sérstaklega þegar þetta er um miðjan dag og skerandi björt vetrarsólin skein inn um gluggana. Ég sagði já við því og við förum inn í svefnherbergi. Þar klæðir hann sig úr öllum fötunum og leggst undir sæng. Þetta var ekki eins og ég hafði séð þetta fyrir mér og þetta var svo sannarlega ekki eins og úr nenni kvikmynd sem ég hafði séð. Það var vægast sagt skrýtið að hátta sig fyrir framan hann á miðjum sunnudegi og fara upp í rúm. Mín fantasía var annað hvort hömlulaus löngun og kynlíf eða mjúkur fókus og rómantík við kertaljós og ljúfa tónlist. En varla gat ég farið að hafa orð á því við þessar aðstæður, svo ég fór úr fötunum og fór upp í rúm, held samt að ég hafi enn verið í nærbuxunum. Við tók forleikur í einhverjar örsekúndur, þá algjörlega hljóðlaust kynlíf í nokkrar mínútur og svo örfáar sekúndur eftir og þá stóð hann upp til þess að fara inn á bað og þvo sér! Þetta var ekki eins og í kvikmyndunum, á engan hátt. Þetta var svona frekar vélrænt og snyrtilegt kynlíf þar sem beinaber og horaður líkami hans rakst utan í öll mín bein og öll mín einbeiting var á að reyna að snúa mér þannig að beinin á honum rækjust að minnsta frekar í mitt fitulag og vöðva því það fór í gegnum mig þegar beinin nudduðust saman.

Svo þannig fór um bólferð þá. En ég er í eðli mínu bjartsýn manneskja og ég var sannfærð um að við myndum slípast saman  og hann myndi eitthvað kvöldið skella mér upp á eldhúsborðið ófær um að hemja sig lengur og nærmynd af mér ( í Hollywood móðu auðvitað) myndi sýna hvernig svitaperlurnar rynnu niður á milli brjóstanna á mér. En nei það sem sagt gerðist aldrei. En ég hefði átt að láta mig hverfa eftir þetta hreinlega kynlíf.

Ég skil ykkur eftir með örklippu af kvikmyndakynlífi

Að blómstra aftur að loknum hörðum vetri

Hvenær segir maður „hingað og ekki lengra“ ? Hvenær tekur maður ákvörðun um að breyta lífi sínu og segja skilið við fortíð sem maður getur ekki breytt? Það er ekkert algilt svar við þessu. En ég get sagt frá hvað varð til þess að ég tók ákvörðun um að breyta lífi mínu og segja skilið við andlegt ofbeldi, dónaskab, sjálfumgleði, og byrja upp á nýtt í von um að finna lífsgleðina að nýju.

Ég veit eiginlega ekki alveg hvar ég á að byrja enda er af mörgu að taka þegar lífsleiðin er skoðuð.

Eftir þrettán ára hjónaband sagði ég hingað og ekki lengra. En þrettán árum áður velti ég því alvarlega fyrir mér hvort ég væri á réttri braut í réttu sambandi. Á þeim tíma efaðist ég, en  ákvað að gefa sambandinu tækifæri og skrifaði erfiðleikana á þá staðreynd að sambandið var ungt, og að við myndum slípast saman með tímanum. En það gerðist aldrei. Sú ákvörðun hefur reynst mér dýrkeypt. Eftir 15 ára samband sat ég eftir brotin, óörugg um sjálfa mig og full af samviskubiti yfir að hafa látið dónaskap og vonsku bitna á barninu mínu og fjölskyldu árum saman.

Ég var gift passive-aggressive  manni. Ég vissi það ekki fyrr en eftir að við skildum þegar ég fór að lesa mér til um hans hegðunarmynstur. Ég var nefnilega orðin alveg sannfærð um að ég væri allt of kröfuhörð, skapvond, óþolinmóð og reyndar á allan hátt erfið í sambúð. En nei ég er ekki erfiðari í sambúð en gengur og gerist. En passive-aggressive maður er mjög erfiður í sambúð. Hann segir ekki hvernig honum líður heldur gefur hann það til kynna með öllu sínu látbragði. Og þögn hans hrópar svo hátt að ekkert annað heyrist. Ég átti svo erfitt með að skilja hvers vegna hann vildi helst leggjast fyrir framan sjónvarpið  með tölvuna í fanginu alla aðventuna á meðan ég hljóp um allt hús að þrífa og baka og skreyta og þau verk sem ég bað hann um að framkvæma, gerði hann seint, illa og aldrei. Þannig tryggði hann að vera ekki beðinn oftar um að gera eitthvað sem hann nennti ekki. Og í hvert skipti sem þetta gerðist þá varð ég pirraðri og pirraðri þangað til börnin voru orðin nógu stór til að taka eftir þessu og sögðu við mig að ég væri alltaf í svo vondu skapi ef það var eitthvað um að vera.

Annað einkenni á passive-aggressive hegðun er að ganga í burtu frekar en að takast á við aðstæður. Það lýsir sér þannig að ég reyni að ræða eitthvað en hann labbar í burtu af því hann vill ekki takast á við vandamálið. Málið er bara að það er svo auðvelt að labba í burtu, þannig þarf maður ekki að segja neitt með orðum og getur komið öllum sínum tilfinningum á framfæri með látbragði frekar en orðum.

Þannig að þá er það komið á hreint að passive aggressive fólk er ömurlegt fólk að búa með, vegna þess að þögin sem þau nota til að tjá sig með toppar öll orð.

Meira síðar um hjónabönd, ástarsambönd, skilnaði, börn, og allt annað.